Rithöfundar
Í heimspekikennslu er stundum teiknað eitthvað á töfluna sem hefur fjórar fætur og plötu þar ofaná. Þetta getur verið borð eða kollur, skemill eða jafnvel rúm, kannski eitthvað annað. Nákvæmlega þetta er það sem við stöndum frammi fyrir þegar við reynum að setja merkimiða á rithöfund. Hvað þarf viðkomandi að hafa skrifað mikið og hvers konar bækur til að teljast rithöfundur? Er ég rithöfundur vegna þess að ég skrifa nokkrar bloggfærslur á ári sem er hugsanlega meira en meðal mínímalískt ljóðskáld sendir frá sér á allri sinni ævi? Er ljóðskáld og rithöfundur ekki það sama? Eru rithöfundar aðeins þeir sem skrifa sögur, smá- og skáldsögur ekki hinir. Eru bloggarar sem sumir hafa lipran stíl og skrifa reglulega og mikið ekki rithöfundar?
Hugmyndin með þessari færslu er ekki að rugla alla í ríminu heldur fá fólk til að viðurkenna, að það getur borgað sig að kalla hlutina og fólk réttum nöfnum. Sá sem er svo tilbúinn að viðurkenna að allir eru allt mun lenda í erfiðeikum með að tjá sig á nákvæman hátt. Það er að vísu sjónarmið og stefna sumra að gefa sem óræðnust svör og gera lítinn sem engan mun á störfum fólks en það er óskiljanlegt hvaða hjálp er af slíku moði. Rithöfundur sem skrifar 150 bls. ritgerð, sögu, novelettu eða slíkt á 3-4 árum sem svo verður gefið út og ekkert annað, maður sem hefur engar skyldur gagnvart neinum er hvað? Er það dæmi um aumingja, snilling, þrákálf, djammara, eða er þetta rithöfundur?
