Friday, November 16, 2007

Heimspekiskvap-2

Það er aðeins ein kenning sem allir geta verið sammála um sem er að sannleikurinn er afstæður Engin ein kennisetning nær yfir alla þætti tilveru okkar. Það er merkilegt að fólk sem skilur inntak þessarar setningar skuli hafa fyrir því að leita að annarri jafn sannri. Það er hins vegar eðlilegt að fólk með mikla skólun í ræðulist og rökfræði skuli leita í heimspeki. Tungumálið er línulegt ferli á atburðarás og á hverjum tímapunkti fer orðræðan framhjá einhverjum vegvísum sem þýðir að enn nýr sannleikur blasir við okkur. Sá sannleikur sem er að baki þarf ekki endilega að halda sannleiksgildi sínu þegar sá nýi blasir við í orðræðunni. Að nota tungumál í heimspeki er eins og að nota skeið við að grafa húsgrunn. Tæknilega séð er það hægt en að verki loknu er hætt við að verkfærið hafi bjagast mikið og eins að hreinsa þurfi upp það sem búið var að hreinsa upp.

Tuesday, November 06, 2007

Skuggahverfið

Fyrir nokkrum misserum luku verktakar við nokkrar íbúðarblokkir í Skuggahverfinu hjá Lindargötu í Reykjavík. Húsin eru mjög há og klædd með svörtum steinflísum að utan. Það vekur furðu margra að nú, svo stuttu eftir að byggingu lauk hafa margar svartar steinflísar losnað og fallið niður. Talað hefur verið við byggingaverktaka og aðra sem hafa borið ábyrgð á framkvæmdum og því er ekki að leyna sökin er hjá hinum erlendu verkamönnum sem hafa unnið við bygginguna. "Þessir menn hafa ekki sama skilning og við á því hvernig á að framkvæma og útfæra viss atriði í þessari framkvæmd og svo hafa tungumálaerfiðleikar verið ákveðinn þröskuldur. Við vorum með pólskan verkstjóra sem var ágætur og hann sá um að koma skilaboðum áleiðis. En svo fór hann í frí og þá áttum við ekki eins auðvelt með að hafa samskipti við þennan 15 manna hóp. En það leystist allt.........." Það getur verið gulls ígildi að tala saman. Nú er bara að vona að hinir erlendu verkamenn sem hafa unnið við Kárahnjúkavirkjun hafi kastað alveg jafn mikið til höndunum og þessir í Skuggahverfinu.