Sunday, May 11, 2008

Ást

Elskarðu mig?
-Já
Segðu að þú elskir mig!
Mig langar að heyra þig segja að þú elskir mig!!
-Ég elska þig. En ertu viss um að þú setjir sömu merkingu í orðið og ég? Er orðið með einhvern verðmiða sem þú vilt að ég taki og borgi? Hvernig má það vera að fólk sem ekki getur verið sammála um hvað er hratt, kalt, heitt, geti allt í einu verið sammála um hvað ást er?
Elskarðu mig þá ekki?
-Getur verið að þú viljir hafa tilfinningar mínar skjalfestar og þannig að þegar ég segist elska þig þá veistu að mér líður eins og þú vilt að mér líði? Kannski er ást eitthvað allt annað hjá mér en þér og kannski getum við aldrei komist að því hverju munar ef þá einhverju. Er það allt í lagi?
Ég elska þig nefnilega svo mikið og vil vita hvernig þér líður. Hvort þér líður eins og mér.
- Ég las einhvers staðar að konur fá miklu meira út úr orðum en karlar og það er vegna þess að heilabú kynjanna eru mismunandi. Við karlarnir sækjum meira í myndir og ein birtingarmynd þess er kynlíf og að sjá nakinn líkama og allt það.
Já, þig karlarnir hugsið ekki um annað en kynlíf .........................................................

Hjálparstarf

Vændiskonum þarf að bjarga vegna þess að þær eru alltaf óhamingjusamar. Björgunin felst í því að láta þær hætta vændinu og fá þær til að snúa sér að uppbyggilegri hlutum eins og kassavinnu, burstagerð, þrifum og almennum húsmóðursstörfum. Það er svo mikilvægt að átta sig á því að þær konur sem fara út í vændi gera það í neyð. Hamingjusama vændiskonan er ekki til vegna þess að þær eru allar óhamingjusamar og þetta hafa fyrrverandi vændiskonur staðfest, einkanlega í Svíþjóð.

Getur verið að þeir karlar sem leiðast út í vændi þ.e.a.s. sem kaupendur geri það í neyð og af eintómri óhamingju eða kannski hamingju? Eða er búið að kanna þann hluta vændisins til hlítar?

Þeir sem fjalla um þessi mál eru oftast með fyrirfram ákveðnar skoðanir á því sem þeir eru að rannsaka og eru einnig mjög litaðir af verstu birtingarmynd vændisins nefnilega mansali. Með því að láta tilganginn helga meðalið og þykjast ætla að láta vændi hverfa úr samfélaginu í nafni mansals verður umræðan ævinlega eitthvað bjöguð. Mér virðist sem þessi björgunarleiðangur fyrir vændiskonur sé nokkuð áþekkur þeim sem kristnir trúboðar stóðu fyrir í ýmsum nýlendum evrópumanna frá 16du öld og langt fram á 20 öldina. Flestir sérfræðingar í úttekt á hálparstarfi kristinna eru sammála um að meira ógagn hafi verið unnið en gagn. Einhverjum mannslífum var bjargað en langtum fleiri var fórnað. Kannski verður fórnarkosnaðurinn einnig svona hár í þessum björgunarleiðangri.