Monday, November 13, 2006

Hamingja

Það sem gerir okkur hamingjusöm er í grunninn alltaf einfalt. Við látum undan einhvers konar þrá sem drífur okkur að næsta takmarki og þegar því er náð gefur það okkur venjulega nægjanlega mikið til að við getum litið á það sem hamingju. Í íslenska orðinu er litið svo á að viðkomandi skipti um ham og taki á sig gleðilegri ásýnd. Ef við lítum á menn sem afar einföld fyrirbrigði getum við fundið út mynstur í lífi og hegðun tegundarinnar. Við sækjumst eftir einhverju og þegar því er náð viljum við oftast nær eitthvað annað strax. Þegar börn sýna þessa hegðun kallast það heimtufrekja og vanþakklæti en þegar fullorðnir eiga í hlut er þetta kallað vinnusemi, dugnaður og líka aumingjaskapur og framhjáhald. Það er ömurlegt að þurfa að viðurkenna þetta en svona lítur þetta einfaldlega út og lítið hægt að gera til að fegra það.

Er hægt að breyta þessu og þá hvers vegna? Ég lít svo á að þessum hlutum verði ekki breytt enda ástæðulaust. Hins vegar getum við farið í kring um hlutina m.a. með sjálfsblekkingum. Það dugar venjulega aðeins til skamms tíma. Ef fólk reynir að vera uppbyggilegt í sínu lífi ætti það að taka meiri tíma og erfiði en þegar fólk fer í niðurrifsstarfssemina sem tekur venjulega stuttan tíma. Það er leiðin að takmarkinu sem gefur lífinu gildi og takmarkið er einungis áningarstaður með fallegt útsýni áður en farið er í næstu ferð. Ef við veljum of auðveld verkefni í upphafi eða alltaf það sama er hætta á að leiðinn grípi sálina og beri hana af leið. Það er þessi ögrun sem drífur okkur áfram á jákvæðan hátt.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home