Monday, October 23, 2006

Rauðhettuheilkennið

Þeir sem lesa eilítið meira en fríblöðin komast líklega fljótt að því, að sögur hafa ákveðna uppbyggingu og framvindan er oft keimlík. Ef efnistök eru of lík öðrum sögum eru höfundar sakaðir um stuld en ef of mikil hugmyndaauðgi er á ferð eru höfundar sakaðir um að hafa ekki nægjanlega góð tök á forminu og að söguþræðinum hafi verið "gefið á kjaftinn" eins og Nóbellinn sagði eitt sinn. Fólk vill eins og börnin heyra sömu söguna aftur og aftur. Engu má hnika til í frásögninni því sagan er eins og tónverk, framvindan skiptir mestu máli en ekki svo mikið hvernig hún endar.

Nú hefur sagan um Rauðhettu verið krufin svo nákvæmlega að ekkert kemur lengur á óvart. Þykir sérfræðingum sagan vera ólýsanlegt meistaraverk þar sem átök milli góðs og ills eru í forgrunni. Það sem hægt er að lesa úr ýmsum táknum er áhugavert og jafnvel spennandi. Hver er það sem kemst í gegnum skóginn í rauðu og með matarkörfu á arminum? Fyrir hvað stendur úlfurinn? Er veiðimaðurinn föðurímyndin? Hvers vegna sendir móðirin dótturina í þessa hættuför? Þeir sem ná að endurskrifa Rauðhettu fá verðlaun.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home