Sunday, March 09, 2008

Auglýsingar

Ég hef veitt athygli nokkrum auglýsingum sem hafa hreinlega ekki gengið upp á einn eða annan hátt. Lítum á nokkur dæmi: Heimili án heimavarnar er opið hús auglýsir Securitas. Það er nú þannig að þegar fólk hefur lokað gluggum og læst hurðum er heimilið ekki lengur opið. Dyralæsingar, stormjárn og krækjur hlýtur að teljast til almennra heimavarna þannig að hver sem er getur ekki gengið inn. Er verið að segja fólki að það þurfi að hafa læsingar á útihurðum sínum? Það skín í heimspekilegan hroka á því hvernig á að túlka orð. Þessi setning er e.t.v. afrakstur mikillar vinnu en fyrir venjulegt fólk er þetta argasta bull.

S 24 auglýsir að yfirdráttarlán séu þannig að fólk spari. Það er afar óheppilegt að tengja yfirdrátt við sparnað. Það er nú svo og hefur verið að yfirdráttarlán bera einhverja hæstu vexti í íslenska bankakerfinu. Það hlýtur að vera ljóst að yfirdráttarlán getur aldrei verið fólki sparnaður. Þó svo nokkrum prósentum muni í okurvöxtum á yfirdráttarlánum milli banka er heldur ekki hægt að tala um neinn sparnað í því að borga hagstæðustu okurvextina að yfirdráttarlánum. Hvers vegna eru bankar að auglýsa þessa óhagstæðu vexti? Trúverðuleikinn er ekki til staðar þegar kemur svo að því að auglýsa sparnað.

Stundum auglýsa fyrirtæki eitthvað á bullmáli og allir eiga að hlæja og hlæja. Einhverjar rannsóknir hafa sýnt að komi auglýsing fólki til að hlæja eða brosa virki hún betur en aðrar sem eru ekkert fyndnar. Þessar upplýsingar virðast hafa borist inn á borð hjá Sláturfélagi Suðurlands. Útkoman: Pulsaðu þig upp. Það var ekki fyrr en klámráðsefnunni sem halda átti í Reykjavík á síðasta ári var aflýst að upp rann fyrir mér hvað þetta gæti hugsanlega þýtt. Auðvitað ætluðu allir að pulsa sig upp hérna. Clinton hafði verið hérna og einhverjir sögðu að hann hefði pulsað sig upp en aðeins með sinnepi. Nú var heil ráðstefna sem ætlaði að pulsa sig upp og kannski með öllu. Tveir menn í potti, ósammála um ýmislegt en sættast með því að pulsa sig upp er vel leikin en vekur ekki upp neitt hungur hjá mér.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home