Sunday, October 07, 2007

Fyrirliðar

Hvernig verður hegðun fólks til? Hver stýrir því hvaða samskiptamynstur við tileinkum okkur? Hvað er viðtekin venja og er hún breytileg eftir því hvar við erum stödd?

Fleiri svona spurningar eru jafn athyglisverðar, kannski meira og minna alltaf sama spurningin í hnotskurn. Í útlöndum er greinilega annað samskiptamynstur í gangi en við þekkjum hérna á Íslandi. Til að mynda segja ráðamenn af sér þegar þeir hafa farið yfir einhver mörk í samskiptum sínum við þjóðina en hérna mæta menn nánast brosandi í sjónvarpsal og útskýra alla hluti með því að um misskilning sé að ræða. Það er þessi misskilningur sem ráðamenn í útlöndum taka á sig. Þeir hafa ekki skilið hlutina alveg nógu vel og segja af sér, hérna er það þjóðin og eftirlitsstofnanir sem misskilja.

Erum við enn með gamla bændasamfélagið í hnotskurn í allri stjórnsýslu Íslands? Hafa óðalsbændur enn alltaf rétt fyrir sér en almúginn og fagstéttir rangt? Það lítur út fyrir að menntastéttin hafi verið gerð að tvíeggja sverði með því að nota þau rök sem aðeins menntaðir fagmenn geta lagt fram og svo hins vegar að menntastéttin hafi góð og gild rök fyrir hinu og ýmsu en taka verði þó tillit til þess að menntastéttin sé ekki alltaf í sambandi við almúgann í landinu. Það hafi stjórnmálamenn aftur á móti og því séu þær ákvarðanir sem þeir taka meirihlutanum til hagsbóta. Í útlöndum hafa menn á endanum einfaldlega sagt af sér. Allir þar vita að skítleg barátta við menntastofnanir og vísindasamfélagið er fyrirfram töpuð.

Hin viðtekna venja hérna er að þumbast áfram og reyna að dreifa huga þeirra sem gagnrýna hvað harðast út og suður. Hérna sitja menn áfram hvað sem tautar og raular í útlöndum er viðtekin venja að fólk segi af sér og biðjist afsökunar á sínum gjörðum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home