Thursday, September 07, 2006

Kurteisi

Ég get með góðri samvisku sagt að, ættingjar mínir hafa reynst mér vel og reynt að innræta mér góða siði og hugprýði. Fólkið lifði í sínum veruleika og hafði kristna trú að leiðarljósi. Það var að vissu leyti guðhrætt. Án þess að geta svarið fyrir það, þá held ég að fjölskylda mín hefði ekki verið neitt verri við mig og aðra, þó svo að refsivöndur guðs hafi verið reiddur. Sú kennsla sem ég meðtók var að trúa á það góða í fólki og hlusta á sína innri rödd. Með þau skilaboð í farteskinu og kurteisi í samskiptum við aðra finnst mér einhvern veginn allt byggjast á. Held því ekki fram, að mér verði aldrei á og ég sigli sem ljúfur jáari í gegnum lífið en mér finnst mikilvægt að það sem mér finnst mikilvægt berist til þeirra sem ég umgengst.

Það er mér samt nokkurt umhugsunarefni að, þrátt fyrir alla þá kristilegu hugsun og guðsótta hafi amma mín haft galdra, álög, sendingar, dára og annað sem fylgt hafði þjóðinni frá gamalli tíð, á reiðum höndum. Sem smá patti fannst mér hún alveg eins vel að sér í þessum galdrafræðum sem biblíusögunum. Henni var tíðrætt um mann sem hún virtist þekkja og var það þá einatt þegar galdra bar á góma. Það er ómögulegt að segja hvort það hafi verið pesónulega eða af ljóðunum hans sem hún virtist þekkja hann. Þegar ég varð eldri komst ég að því að hann hafði gert heilmikið galdrakver og er þar að finna ýmsar uppskriftir að göldrum.

Þegar allt er tiltekið skiptir kannski mestu máli að vera víðsýnn og kynna sér hluti sem eiga ekki endilega heima í marmaraheimsmynd okkar í dag. Ég get sagt að, fjölskyldu minni fæ ég seint fullþakkað.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home