Sunday, March 11, 2007

Depl og tár

Það virðist vera sem skilyrði fyrir inngöngu í leikarastétt að hafa undarlega litla þörf fyrir að depla. Segja má, að þessi hæfileiki að getað starað fram fyrir sig tímum saman sé atvinnuleyndarmálið í greininni því búið er að sýna fram á að þeir sem horfa beint í augu fólks og depla ekki auga vinna sér inn meira traust en þeir sem eru sídeplandi og nuddandi augun. Sannfæringin sem einnig skín úr augnunum þykir langtum meiri en hjá þeim sem depla oft. Þeir sem taka eftir þessu geta varla varist brosi því alveg sama er hvaða árans della vellur upp úr leikara ævinlega fer hann með hlutverkið án þess að depla auga. Eiginlega skiptir orðið engu hvort ræðan er þrungin spennu og inntakið í orðunum er magnað eða hvort verið er að vísa einhverjum til vegar að næsta stórmarkaði, sama staran blasir við áhorfendum.

Svo eru það aðal-kvenhlutverkin sem nánast alltaf bjóða uppá að leikkonan felli nokkur tár í myndinni. Þannig er að vilji leikkona verða eitthvað númer og öðlast einhvern frama verður hún að geta grátið almennilega og af innlifun og sannfæringu. Hvergi er hinni stöðluðu ímynd kvenna meira viðhaldið eins og í bíómyndum. Karlar eiga að vera sterkir og konur eiga að vera veikar. Í seinni tíð hafa sumir leikstjórar s.s. Clint Eastwood gert skilin ógreinilegri. Þar leikur hann venjulega einhvern sjúkling en konurnar í hans myndum eru annað hvort fórnarlömb eða sterkar og ófrávíkjanlegar einhverjum málsstað. Venjulega er þá aðeins um eitt aðalhlutverk að ræða og er þá búið að steypa skylduæfingum kvenhlutverksins inn í karlhlutverkið.

Ég ætla út í búð og ekki að depla auga.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home