Thursday, September 07, 2006

Sjálfsmynd

Flestir fá þá hugmynd einhvern tímann á ævinni, að þeir sjálfir og þeirra verk séu hrein meistarastykki og allt sé frábært. Negatífan á þessari sjálfsmynd er líka til en þá öll með öfugum formerkjum. Allt þetta tal um sálfræðileg efni og skilgreiningar er í sjálfu sér saklaust en hneppir hugsanir okkar í vissa fjötra sem við viljum eða þorum ekki að brjóta. Fæstir leggja í þá vinnu og fyrirhöfn að ætla að hnekkja einhverju sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi sem sannleikur. Sjálfsmyndin er blekking sem allt annað, óraunveruleg en viss lýsing og heimild um það sem við erum. Þessi mynd er fín fyrir þá sem eru meðferðaraðilar en fyrir perónuna sjálfa er hún ekkert. Án þess, að ætla að setja fram stórkostlega kenningu hérna vil ég aðeins nefna það að við höfum ekkert hvorki hugsun né sjálfsmynd. Ég á mér enga sjálfsmynd, aðeins tilfinningar sem ég bregst við eftir því hvernig aðstæður og umhverfið bjóða uppá. Það er ekki auðmýkjandi fyrir mig að viðurkenna að ég hef enga hugsun heldur aðeins viðbrögð við tilfinningum. Sérstök verkefni s.s. stærðfræði verkefni er hægt að leysa með tilfinningum og mikið af æðri stærðfræði er byggð á tilfinningum. Læknisfræði, kennsla, öll verkamannavinna er grundvölluð á því sama. Maðurinn er miklu einfaldari en við viljum trúa. Leitum ekki langt yfir skammt.