Tuesday, October 31, 2006

Lífslíkur

Spurningin sem við systkynin bárum oftast upp á kvöldin þegar við horfðum á stjörnurnar út um gluggann var: Hvað heldurðu að þú verðir gamall/gömul? Af einlægni svöruðum við þessu margoft því við vorum ekki viss. Við vildum fyrst lifa í 100 ár og alls ekki minna en 85. Við fórum svo að gera ráð fyrir ýmsum sjúkdómum og slysum og þá auðvitað gat tíminn hérna verið umtalsvert styttri. Öll erum við enn lifandi þótt ýmsir sjúkdómar hafi herjað á. Ég er viss um að lifa í 9 ár í viðbót en eftir það getur allt gerst. Það er ekki svo slæmt ef rétt reynist en við skulum sjá hvað verður.

Monday, October 23, 2006

Rauðhettuheilkennið

Þeir sem lesa eilítið meira en fríblöðin komast líklega fljótt að því, að sögur hafa ákveðna uppbyggingu og framvindan er oft keimlík. Ef efnistök eru of lík öðrum sögum eru höfundar sakaðir um stuld en ef of mikil hugmyndaauðgi er á ferð eru höfundar sakaðir um að hafa ekki nægjanlega góð tök á forminu og að söguþræðinum hafi verið "gefið á kjaftinn" eins og Nóbellinn sagði eitt sinn. Fólk vill eins og börnin heyra sömu söguna aftur og aftur. Engu má hnika til í frásögninni því sagan er eins og tónverk, framvindan skiptir mestu máli en ekki svo mikið hvernig hún endar.

Nú hefur sagan um Rauðhettu verið krufin svo nákvæmlega að ekkert kemur lengur á óvart. Þykir sérfræðingum sagan vera ólýsanlegt meistaraverk þar sem átök milli góðs og ills eru í forgrunni. Það sem hægt er að lesa úr ýmsum táknum er áhugavert og jafnvel spennandi. Hver er það sem kemst í gegnum skóginn í rauðu og með matarkörfu á arminum? Fyrir hvað stendur úlfurinn? Er veiðimaðurinn föðurímyndin? Hvers vegna sendir móðirin dótturina í þessa hættuför? Þeir sem ná að endurskrifa Rauðhettu fá verðlaun.

Sunday, October 15, 2006

Þurska

Róbert er þurs. Hann vinnur fyrir fyrirtæki sem er stórt og þess vegna heldur hann að ósveigjanleiki og orðtoganir séu merkilegra verkefni en að sinna þeim mistökum sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir. Hann lítur á, að það sem hann gerir sé allt í þágu fyrirtækisins enda hefur hann skipanir frá yfirmönnum um að láta einhverja viðskiptavini ekki komast upp með neitt múður. Til langs tíma litið er þessi stefna Róberts alveg beint í strand og þjónar ekki hagsmunum fyrirtækisins. Hins vegar er þetta alveg fyrirtaks stefna hjá manni sem er og vill vera þurs, þ.e.a.s. að afgreiða allar kvartanir sem inn á hans borð koma sem móðursýki. Þannig er að þurs vill alltaf vera þurs og hreinlega þrífst á því.

Róbert: En þú áttir von á reikningi inn á heimabankann og það er ekki okkur að kenna þótt þú borgir hann ekki og að núna er komið vanskilagjald á hann.

Viðskiptavinur: Já það er rétt en sjáðu upphæðin átti að vera 1990kr. en var nálægt 2500. Nafnið á fyrirtækinu sem ég gerði samning kemur heldur ekki fram á reikningnum í einkabankanum, heldur annað nafn sem ég kannast ekki neitt við. Þannig að bæði nafnið og upphæðin stemmir ekki.

Róbert: Já, það er algengt að fyrirtæki eigi önnur fyrirtæki sem sjá um reksturinn........en við þessar 1990 kr. leggst seðilgjald upp á 250 kr. ásamt .........................

Viðskiptavinur: Allt í lagi en ég hef einfaldlega ekki fengið seðilinn í hendurnar og berast þó allir greiðsluseðlar skilvíslega til mín. Á ég að borga seðilgjald fyrir seðil sem berst mér svo ekki?

Róbert: Það er ekki okkar sök. Þú verður að tala um það við bankann.

Viðskiptavinur: En geturðu ekki þá bakfært þetta vanskilagjald sem augljóslega er komið til af misskilningi sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir og það einfaldlega tók mig það langan tíma að komast að hver var á bak við að upphæðin var komin fram yfir eindaga.

Róbert: Þú hafðir nægan tíma til að komast að þessum upplýsingum og það er ekki okkar sök þótt þú hafir ekki greitt.

Viðskiptavinur: Heyrðu, fyrirtækið er ekki skráð í símaskrána og Já.is gaf mér upp tvö símanúmer sem gætu tengst þessu fyrirtæki. Það getur varla verið mér að kenna þótt ekki sé svarað í þessa síma strax og ég hringi.

Róbert: Ég get bara ekki bakfært einhverja reikninga sem þú hefur trassað að greiða........

Lexían sem Róbert er að reyna að kenna mér er þessi: Borgaðu alla reikninga sem þú færð inn á heimabankann. Nafn fyritækisins og upphæð reikningsins skiptir ekki máli bara það að standa í skilum. Ef einhver gerir samning við Cyprus ehf. og upphæðin er 20.000kr en MikkiMús ehf. sendir reikning upp á 25.000kr þá er bara að borga og spá svo ekki meira í það.

Er maðurinn ekki þurs?

Monday, October 09, 2006

Örvun

Það er hægt að fá örvun með ýmsu móti en til að einangra sæluörvun þarf að beina sjónum að endorfíni, sem er boðefni til heilans. Hin eiginlega örvun verður til við líkamlegt erfiði eða við sársauka þannig að líklega er það skýringin á hinu geysivinsæla BDSM. BDSM eða blæti á sér ýmsar hliðar en nafninu samkvæmt er áherlsan á fjötra og stjórnun/drottnun. Kynlíf í hefðbundnum skilningi er ekki endilega markmiðið heldur sambandið og traust á það, að fá sæluörvun án þess að hljóta sýnilega líkamlega áverka. Að stunda líkamrækt reglulega er ein leið til að upplifa sælutilfinninguna sem hin ýmsu boðefni kalla fram, dópamín, endorfín og fleiri. Kynlíf er einnig leið til að kalla fram þessa sælutilfinningu og má segja að það séu verðlaunin fyrir frammistöðuna í rúminu. Náttúran tók ekki sjensinn á að fólk kæmi þessum skilaboðum á framfæri skriflega en byggði þetta þess í stað inn í flest okkar. Af hverju erum við svona ófullkomin?

Saturday, October 07, 2006

Góðverk

Mesta góðverk sem hægt hefði verið að gera mannkyninu á 20. öldinni hefði verið að ganga frá Hitler. Semsé þá er það morð sem hefði verið það besta sem hefði komið fyrir Evrópu. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvert en áhugaverðari spurning er hvar hættir morð að vera góður kostur fyrir mannkynið? Hin spurningin er: Hafa sigurvegarar ekki alltaf rétt fyrir sér?

Thursday, October 05, 2006

Matur

Búið er að sýna fram á að þeir sem borða lítið eiga meiri möguleika á að lifa lengur. Ég er persónulega til í samþykkja allt sem frá vísindamönnum kemur og eins allar breytingar sem frá þeim kunna að koma. Það er hægt að draga andann hálf dauður eða alveg. Það verður einhver áhugi að vera á lífinu til að hægt sé að njóta þess. Of feitur maður en lifandi getur átt gott lífshlaup, kannski betra en sá sem er tágrannur þótt sá granni geti átt lengra líf fyrir höndum. Kannski er best að hafa eitthvað uppbyggilegt fyrir höndum, borða lítið, stefna á að halda upp á þriggjastafa afmæli og gleðjast. Að vísu get ég ekki sannað neitt af þessu og þess vegna er líklega ekki sniðugt að trúa neinu af þessu.

Tuesday, October 03, 2006

Vatn

Af öllu því sem er mikilvægt er líklega minnst talað um vatn. Greinar um vatn eru ekki ýkja margar en sumar fjalla á byltingarkenndan hátt um hegðun vatns. Talað er um að H2O hafi minni. Við vitum að 80% líkamans er vatn og í heilanum er mest vatn. Hvers vegna þykir það þá byltingarkennt að tala um að vatn hafi minni? Er það vegna þess að það á eftir að "sanna" það með "vísindalegum" rökum? Það væri spennandi ef fólk þyrði að ræða um hluti sem það hefur áhuga á þótt þeir hafi ekki enn verið gerðir að opinberum sannleika. Líklega erum við smáborgarar fram í fingurgóma og höldum okkur alltaf réttu megin við línuna þegar kemur að gáfulegum athugasemdum.

Setuliðið

Hin táknræna ímynd hersetunnar er horfin en eftir stendur allt draslið og mengunin sem þetta lið skildi eftir sig. Nú er svo komið að Íslendingar vilja ráða sinni framtíð SJÁLFIR en kjörnir fulltrúar eiga aðeins að sinna daglegum rekstri á þjóðarskútunni. Kjörnir fulltrúar eru embættismenn sem eiga EKKI að breytast í valdastétt þó svo þeir hafi náð inn á þing. Þeirra hlutverk er að þjóna fólkinu sem kaus það.

Mælirinn er fullur-- það þarf að gera embættismönnum þjóðarinnar grein fyrir því, að ekki verði unað við geðþóttaákvarðanir forustumanna stjórnmálaflokka í mikilvægum málum. Lýðræðið er einu sinni svifaseint en það er það fyrirkomulag sem við kjósum að búa í. Ef stjórnmálamenn vilja annað umhverfi en lýðræði er tiltölulega auðvelt að skapa slíkt ástand. Þá verða embættismenn, þeir sem kjósa að feta einræðisveginn, og fjölskyldur þeirra hugsanleg skotmörk manna sem telja sig vera að verja lýðræði landsins. Menguð vatnsból og jarðvegur er stórmál, stórfelld náttúruspjöll í gróðasjónarmiði eru það líka. Þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál þarf að taka upp áður en einhver slasast.