Róbert er þurs. Hann vinnur fyrir fyrirtæki sem er stórt og þess vegna heldur hann að ósveigjanleiki og orðtoganir séu merkilegra verkefni en að sinna þeim mistökum sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir. Hann lítur á, að það sem hann gerir sé allt í þágu fyrirtækisins enda hefur hann skipanir frá yfirmönnum um að láta einhverja viðskiptavini ekki komast upp með neitt múður. Til langs tíma litið er þessi stefna Róberts alveg beint í strand og þjónar ekki hagsmunum fyrirtækisins. Hins vegar er þetta alveg fyrirtaks stefna hjá manni sem er og vill vera þurs, þ.e.a.s. að afgreiða allar kvartanir sem inn á hans borð koma sem móðursýki. Þannig er að þurs vill alltaf vera þurs og hreinlega þrífst á því.
Róbert: En þú áttir von á reikningi inn á heimabankann og það er ekki okkur að kenna þótt þú borgir hann ekki og að núna er komið vanskilagjald á hann.
Viðskiptavinur: Já það er rétt en sjáðu upphæðin átti að vera 1990kr. en var nálægt 2500. Nafnið á fyrirtækinu sem ég gerði samning kemur heldur ekki fram á reikningnum í einkabankanum, heldur annað nafn sem ég kannast ekki neitt við. Þannig að bæði nafnið og upphæðin stemmir ekki.
Róbert: Já, það er algengt að fyrirtæki eigi önnur fyrirtæki sem sjá um reksturinn........en við þessar 1990 kr. leggst seðilgjald upp á 250 kr. ásamt .........................
Viðskiptavinur: Allt í lagi en ég hef einfaldlega ekki fengið seðilinn í hendurnar og berast þó allir greiðsluseðlar skilvíslega til mín. Á ég að borga seðilgjald fyrir seðil sem berst mér svo ekki?
Róbert: Það er ekki okkar sök. Þú verður að tala um það við bankann.
Viðskiptavinur: En geturðu ekki þá bakfært þetta vanskilagjald sem augljóslega er komið til af misskilningi sem fyrirtækið er ábyrgt fyrir og það einfaldlega tók mig það langan tíma að komast að hver var á bak við að upphæðin var komin fram yfir eindaga.
Róbert: Þú hafðir nægan tíma til að komast að þessum upplýsingum og það er ekki okkar sök þótt þú hafir ekki greitt.
Viðskiptavinur: Heyrðu, fyrirtækið er ekki skráð í símaskrána og Já.is gaf mér upp tvö símanúmer sem gætu tengst þessu fyrirtæki. Það getur varla verið mér að kenna þótt ekki sé svarað í þessa síma strax og ég hringi.
Róbert: Ég get bara ekki bakfært einhverja reikninga sem þú hefur trassað að greiða........
Lexían sem Róbert er að reyna að kenna mér er þessi: Borgaðu alla reikninga sem þú færð inn á heimabankann. Nafn fyritækisins og upphæð reikningsins skiptir ekki máli bara það að standa í skilum. Ef einhver gerir samning við Cyprus ehf. og upphæðin er 20.000kr en MikkiMús ehf. sendir reikning upp á 25.000kr þá er bara að borga og spá svo ekki meira í það.
Er maðurinn ekki þurs?