Friday, December 29, 2006

Gróði

Er það eðlilegt, að fyrirtæki hagnist á viðskiptum sínum, í eins litlu samfélagi og er á Íslandi, um milljarða? Ég sé ekki nein rök fyrir því að einhver hópur sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð hagnist út í það óendanlega. Eiga fjölskyldutengsl og stjórnmálaskoðanir að stjórna því hverjir eiga einhverjar eignir á Íslandi? Það vita allir að ríkidæmi fylgir völd og kannski eru það þessi völd sem fólk má ekki komast yfir.

Friday, December 22, 2006

Valkvíði

Jólamúsikin verður sífellt háværari og alls staðar sætindi til að koma fólki í rétt jólaskap. Jólahlaðborðin svigna og réttirnir í boði kannski ekki óendanlega margir en samt allt of margir. Þá gerist það hjá hinum venjulega íslendingi í jólaskapi að hann fyllist valkvíða. Í stað þess að velja sér einhverja 3-4 rétti á disk af kannski 15 rétta borði þá fer hann í þá vitleysu að reyna að éta allt það sem er í boði. Einhverjir hafa nefnt þetta ofát en ef þessi venjulegi íslendingur sem hefði aðeins einn rétt á borðum myndi þetta líklega ekki verða eins algengt. Við þurfum að læra að velja og hafna, ekki gleypa allt sem er í boði og sjá svo til. Kannski væri foreldrum nær að kenna börnum að velja það sem skiptir máli en ekki moka, í góðærisfylliríi, öllu sem hugsast getur í þau. Það ætti að vera forgangsatriði að kenna fólki að velja það sem skiptir máli. Þurfum við endilega meira en það sem gerir okkur södd?

Tuesday, December 12, 2006

Ástin og orðin yfir það sem við getum ekki sagt frá

Tungumálið er ekki nógu fullkomið til að tjá allar tilfinningar okkar og þau blæbrigði sem við búum yfir. Það fólk sem stundar kynlíf og samfarir reglulega, kemst að fyrr eða síðar, að þrátt fyrir allt eru óendanleg blæbrigði þar að finna, bæði í því sem kallast forleikur og eins fullnægingunni sjálfri. Tungumálið nær ekki svona langt að geta greint þarna á milli og þótt notuð séu ný og ný orð í þeirri von að geta lýst einhverju kynlífstengdu á sem nákvæmastan hátt verður það víst aldrei nema fölt endurskin af atburðinum og í flestum tilfellum klisjukennt raus. Ást er tilfinning en ekki orð. Fólk vinnur úr tilfinningum á mismunandi hátt og kemur ekki endilega upp með sömu setningar og næsti maður þó svo að upplifunin hafi verið hliðstæð. Nei, ást er það sem er ósagt, það sem þarf ekki að tala um. Það er hægt að skynja líðan þess sem maður hefur tengst án þess að fá langa orðræðu um það. Í minni vitund er það ást.

Saturday, December 09, 2006

Jólastemming

Aldrei, aldrei er minnst á það í hvernig stemmingu maður er allan ársins hring en svo allt í einu þegar desember rennur upp þá er gert ráð fyrir að maður fari í einhverja jólastemmingu. Þetta skítlega snobb fyrir jólunum fær mann til að setjast niður og skrifa. Er öllum virkilega sama um alla nema á jólunum? Þurfa fyrirtæki endilega að gefa tveggja metra langar ávísanir í desember? Er enginn skortur á vatni í Afríku hina mánuði ársins? Er ekki hægt að gefa út bækur nema rétt fyrir jólin? Miðast allt við að geta selt einhverja vöru? Ertu komin í jólaskap þýðir því í lauslegri útlistun: Ertu orðin(n) yfirborðsleg(ur) áður en jólin ganga í garð þannig að þú getir kæst yfir að sjá rauðklæddan hvítskeggja keyra stóran vöruflutningabíl með jólalögin í botni og alla glugga opna? Já, þá færðu að upplifa auglýsinguna sem Kók fyrirtækið gerði til að selja gosið sitt. Húrra!!!

Saturday, December 02, 2006

Síkópatar

Flestir viðurkenna aldrei að þeir séu síkópartar vegna þess að tilvera þeirra er það sem þeir upplifa. Það er nánast sama hvað sagt er, fólki finnst það vera heilbrigt og því ekki eitthvað síkópata-rugl-eitthvað. Einkennin á síkópata er að sá er oft mjög klár á einhverju sviði, vinnu- og samviskusamur. Þeirra hegðun er oft réttlætt út frá dugnaði þeirra og framtakssemi. Þar sem þetta á við nánast alla þjóðina þá koma aðgreinandi einkennin hérna: Þeir passa sig á að hafa nokkra nána vini í kringum sig þó svo að þeim lyndi sjaldnast lengi við þá sem eiga einhver samskipti við þá. Eru oft vænisjúkir og taka öfgafullar ákvarðanir sem eru sjaldnast í samræmi við tilefni. Með öðrum orðum, eiga erfitt að setja sig nákvæmlega í spor annarra og fara gjarnan of skammt eða alltof langt í þeim efnum.

Er eitthvað að því að vera síkópati? Það getur verið það, sérstaklega þegar fólk viðurkennir ekki sína annmarka og neitar að taka nokkru tali en tekst að eitra umhverfi sitt með ónærgætni og tillitsleysi.

Síkópatísk hegðun er lærð og kemur fram í sjúklegri þrá í að ganga fram af sjálfum sér. Komast lengra en þeim er ætlað að komast eða öllu heldur trúa því að þangað sé hægt að komast.