Wednesday, September 27, 2006

Gegn virkjun

Að ganga niður Laugavegninn og mótmæla virkjun var það minnsta sem ég gat gert í gærkvöldi. Ég kann ekki að skipuleggja mótmæli en er til í að leggja málstaðnum lið þegar ég get. Vonandi hafa ráðamenn haft eyrum opin og kunna að lesa í fréttir. Kannski er best að stofna sérsveit þannig að íslendingar geti fært mótmæli sín upp á næsta plan og að þetta verði síðasta kynslóð ráðamanna sem hugsar ekkert um afleiðingar gjörða sinna. Íslendingar hafa alltaf verið seinir til en þeir eru fljótir að læra.

Monday, September 25, 2006

Þögn

Alger þögn er ekki til. Alger þögn felur í sér hjartslátt og andardrátt og þetta tvennt er nóg til að fá þögnina til að víkja. Sem lífverur upplifum við aldrei þessa algeru þögn. Eftir smá stund hefur líkaminn vanist þessu og við hættum að heyra hjartslátt og andardrátt þá finnst flestum þögnin vera alger. Ef við setjum skógarþröst og jarm í kindum inn í myndina líta flestir á það sem óverulega truflun við algera þögn. Borvél og umferðarniður er nóg til að rjúfa hina algeru þögn. Það er undir hverjum og einum komið hversu hár þröskuldurinn er en samt er það merkilegt að öll lífræn hljóð vekja síður hávaðatilfinninguna í fólki en vélarniðurinn, jafnvel þótt vélarniðurinn geti verið lægri. Við erum fjaska ófullkomin þó svo við kunnum að lesa og skrifa.

Saturday, September 23, 2006

Ást

Ást er sjúklegt ástand, því að við ákveðna hrifningu framkallar líkaminn þetta ástand. Þetta væri meðhöndlað sem sjúkdómur ef fólk vissi ekki hvað væri að gerast og hvað yrði um einstaklinginn þegar þessu lyki. Venjulega léttist fólk og fær ýmsar ranghugmyndir um einhvern aðila sem það er hrifið af. Einbeiting og rökhugsum víkja fyrir kynþörf og órum. Ástsýki er erfið við að eiga og ættu allir að sýna umhyggju í samskiptum við það fólk sem á í þess háttar basli.

Sunday, September 17, 2006

Að elska of mikið

Konan sagði við mig: Ég elska þig en ég þori ekki að elska þig of mikið. Kannski ferðu frá mér og þá veit ég ekki hvað ég á að gera.
- Mér finnst þú fín eins og þú ert.....stundum svolítið fjarræn en ......
Eiginlega vil ég ekki hugsa of mikið um þig.
-Þú veist að ég get ekki stjórnað því hvernig þú er og hvað þú hugsar um. Ég er ekki neitt á leiðinni frá þér ...en við deyjum öll einhverntímann.

Thursday, September 14, 2006

Spurningar um siðferði og lífsskoðanir

Vinur minn sagði við mig að hann gæti hvorki hugsað sér að stofna til sambands né vera með konu sem hann vissi, að væri búinn að sænga hjá fjölda karla. Ef bólfélagarnir hefðu aðeins verið 3-5 eða svo væri það annað mál.

Mér finnst þetta merkilegt því að ég vissi ekki að tilfinningar væru svo bundnar við siðferði. Í mínum augum eru tilfinningar bundnar við það sem þörf, hvöt, langanir og ótti vekur hjá fólki en það að siðferði, sem er venjulega ótti eða þrá til að uppfylla einhverjar forskriftir sem settar hafa verið, skuli hafa slíkt vægi kom mér á óvart.

Dæmi: Ef kona stundar vændi og fær til sín karlmenn árið um kring, að jafnaði um 1-2 á dag þá má búast við að hún kynnist tugum karlmanna. Margir verða væntanlega fastakúnnar vinir og jafnvel hluti af hennar tilveru s.s með því að aðstoða hana við bílinn, bókahillur, parketlögn, fjármálaráðgjöf osfrv. Hvenær hættir hún að vera vændiskona í augum þessara manna og verður kynlífsfélagi? Þegar mennirnir hætta að greiða fyrir dráttinn? Eða verður hún alltaf vændiskona vegna þess að hún vinnur enn við að selja kynlíf til annarra manna? Þegar hún hættir að selja sig hættir hún þá um leið að vera vændiskona? Verður hún kannski alltaf vændiskona sama hvað hún mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni?

Dæmi: Kona sem stundar kynlíf með manni sínum og þau ákveða að fá fleiri konur og menn inn í sitt kynlíf er þá konan vændiskona eða frjálsleg eiginkona?

Er það svo að kynlíf er eitthvað óhreint í hugum fólks og það fái einhverja sektarkennd ef það stundar það eins og mikið og það langar til? Getur verið að kynlíf og samfarir og það að ríða sé ekki alveg það sama? Rugla karlmenn því saman að ríða einhverri konu og stunda kynlíf með henni? Getur verið að konan þurfi að hafa einhverjar langanir til mannsins til að það teljist samfarir? Í flestum samböndum segja konur nei við kynlífi ef þær langar ekki í kynlíf. Flestar konur vilja kynlíf með sínum mönnum. Hugmyndir kvenna og karla eru ólíkar en stundum fara þær saman.

Að nota skilgreiningu á hvað er kynlíf, samfarir, dráttur, atlot, o.s.frv. er hægt að líta á líkama sinn sem verkfæri til að afla tekna við kynlífsathafnir líkt og læknir sem skoðar legháls kvenna og þreifar brjóst þeirra. Engir færu að saka karlmann í slíku starfi um eitthvað kynlífstengt. Þó svo læknirinn hafi fingur inni í leggöngunu og hendur á brjóstum þessara kvenna langar hann líklega ekkert til í kynlíf með þeim. Vændiskona sem fær etv einhvern viðskiptavin til að öðlast meira sjálfstraust eftir að hafa fullnægt honum og rætt við hann nær samt ekki að komast upp á þann stall að vera talin meðferðaraðili þrátt fyrir að líta á samneyti sitt viðskiptavini sem drátt og atvinnu sína. Það sem helst kemur í veg fyrir það eru þær konur sem líta niður á vændiskonur og allar aðrar sem ekki eru með viðlíka skoðanir og þær sjálfar. Líklega er það sektarkenndin sem þarna er fyrirferðarmest og henni hefur verið vandlega komið fyrir fyrir í fólki t.d. í gegnum kristna trú og boðorðin 10.

Monday, September 11, 2006

Galdur

Ýmsar kenningar eru til um uppruna orðsins "Galdur". Hér koma fjórar.

1. Galdur getur verið myndað með forskeytinu ga- sem merkir samsíða og eldur. Ef menn sjá fyrir sér galdur sem hópverknað þar sem menn hafa verið hlið við hlið umhverfis eld virðist merkingin augljós. ga-(e)ldur. Af þessum gjörning virðist orðið seyðkarl-kerling einnig hafa orðið til. Galdur virðist af þessu hafa verið meira en eitthvað matarstúss.

Á hinn bóginn er engin nýlunda að fólk stendur hlið við hlið í kringum eld. Því má ráða af orðinu "galdur", að eldamennska hafi verið eins manns verk en þegar fleiri verið samankomnir hafi það verið galdur. Held þó að þetta hafi ekki verið notað um kennslustund í matreiðslu.

"Galdur" 2. Ef við lítum á að orðið galdur sé skylt orðinu galinn, sögninni að gala hljóta galdramenn fyrrum að hafa haft það hátt við sína iðju, að það hafi minnt á gal í fugli. Þetta er spennandi tilgáta en líklega hafa galdramenn þurft að vera allt annað en galnir við sína iðju þótt leikmönnum hafi fundist svo.

"Galdur" 3. Ef litið er á að orðið sé myndað úr forskeytinu gal- og eldur fæst skemmtileg skýring á þessu fyrirbæri. Forskeytið gal- merkir stór, mikill. Í samsetningu við eldur virðist sem gal-(el)dur, galdur verið lýsing á miklum eldi sem menn hafa kveikt.

"Galdur" 4. Flestir muna eftir Baldri sem einum af ásunum. Baldur gerði samning við alla lifandi verur og hluti um að enginn myndi vinna sér mein. Hengijurtin mistilteinn sem er hálf slyttingsleg varð honum að aldurtila þegar verið var að kasta í Baldur allskyns drasli. Gleymst hafði að gera samning við mistilteininn. Þessi samningur sem Baldur náði við umhverfi sitt hlýtur að hafa verið talinn góður, þó svo að smá mistök hafi átt sér stað. Alveg er viss um að einhverjir hafi viljað vera eins og Baldur og jafnvel eygt möguleika á komast fyrir gloppur í samningsferlinu. Ef forskeytið Ga- og (Ba)ldur er sett saman fæst út eiginleiki sem jafnast á við það sem Baldur hafði.

Fyrir þá sem þekkja til, þá er Baldur, hinn hvíti ás, hrein samsvörun við Jesús nokkurn Kristinson og prestar hafi að einhverju leyti tekið að sér hlutverk galdramanna. Samsvörun milli þessara tveggja guða er of náskyld að um hreina tilviljun geti verið að ræða. Ef við lítum á þetta í þessu ljósi vakna margar spurningar sem eflaust margir vilja ekki svara.

Það er alltaf til fólk sem vill meiri völd en þeim hefur verið úthlutað og vill því freista þess að ná samningum við æðri máttarvöld. Kannski að galdrakarl hafi verið notað um mann sem haldin var Jesús Krists heilkenninu?

Sverð og skjöldur

Þegar þetta er skrifað eru tveir Bakkabræður í ráðherrastólum þeir Geir og Björn. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi ef þeir væru hvor í sínum flokkinum. En hvers vegna tala þeir ekki saman fyrst þeir er báðir í sama flokkinum?

Þannig er að núna þegar herinn er næstum alveg búinn að pakka saman öllu dótinu er líka eiginlega búið að slökkva á Ratsjárstofnun og þar með er ekkert eftirlit með flugi öðru en áætlunarflugi. Hvaða einkaflugvél sem er getur nú flogið til landsins, varpað farmi nánast hvar sem er án þess að nokkur taki eftir. Þetta finnst Geir allt í lagi, en vill samt taka hart á fíkniefnasölu. Björn bróðir hans hefur meiri áhyggjur af skrílslátum og mótmælendum innanlands og vill stofna harðsvíraða sveit sem getur tekið svolítið á þessum kónum sem hafa ekkert annað að gera en mótmæla.

Ísland á betra skilið!!

Thursday, September 07, 2006

Sjálfsmynd

Flestir fá þá hugmynd einhvern tímann á ævinni, að þeir sjálfir og þeirra verk séu hrein meistarastykki og allt sé frábært. Negatífan á þessari sjálfsmynd er líka til en þá öll með öfugum formerkjum. Allt þetta tal um sálfræðileg efni og skilgreiningar er í sjálfu sér saklaust en hneppir hugsanir okkar í vissa fjötra sem við viljum eða þorum ekki að brjóta. Fæstir leggja í þá vinnu og fyrirhöfn að ætla að hnekkja einhverju sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi sem sannleikur. Sjálfsmyndin er blekking sem allt annað, óraunveruleg en viss lýsing og heimild um það sem við erum. Þessi mynd er fín fyrir þá sem eru meðferðaraðilar en fyrir perónuna sjálfa er hún ekkert. Án þess, að ætla að setja fram stórkostlega kenningu hérna vil ég aðeins nefna það að við höfum ekkert hvorki hugsun né sjálfsmynd. Ég á mér enga sjálfsmynd, aðeins tilfinningar sem ég bregst við eftir því hvernig aðstæður og umhverfið bjóða uppá. Það er ekki auðmýkjandi fyrir mig að viðurkenna að ég hef enga hugsun heldur aðeins viðbrögð við tilfinningum. Sérstök verkefni s.s. stærðfræði verkefni er hægt að leysa með tilfinningum og mikið af æðri stærðfræði er byggð á tilfinningum. Læknisfræði, kennsla, öll verkamannavinna er grundvölluð á því sama. Maðurinn er miklu einfaldari en við viljum trúa. Leitum ekki langt yfir skammt.